120 likes | 218 Views
Málþing um byggðamál Búsetuskilyrði á landsbyggðinni og starfsskilyrði fyrirtækja 21. mars 2003. Tillögur á grundvelli rannsóknarinnar. Tryggvi Þór Herbertsson Hagfræðistofnun. Oft og tíðum er munurinn á atvinnu- og byggðastefnu óljós.
E N D
Málþing um byggðamálBúsetuskilyrði á landsbyggðinni og starfsskilyrði fyrirtækja 21. mars 2003 Tillögur á grundvelli rannsóknarinnar Tryggvi Þór Herbertsson Hagfræðistofnun
Oft og tíðum er munurinn á atvinnu- og byggðastefnu óljós. Afskipti af einstökum atvinnugreinum hafa áhrif á byggð og afskipti af byggðamálum hafa áhrif á einstakar atvinnugreinar. Almennt má flokka aðgerðir í byggðamálum í fernt: Beinn fjárhagslegur stuðningur, t.d. niðurgreidd lán, styrkir, ábyrgðir og áhættufjármagn til fyrirtækja á tilgreindum landsvæðum, og samvinna við fyrirtæki og sveitarfélög um framgang ýmissa nýjunga. Óbeinir hvatar til þróunar, t.d. samgöngubætur, styrkir til menntamála, lög og reglur. Niðurgreiðslur á kostnaði ýmiss konar, t.d. flutningskostnaði, flutningsjöfnun, námskostnaði og niðurgreiðsla húshitunar. Skattalegir hvatar til svæða sem eiga undir högg að sækja, t.d. mismunandi skattheimta milli svæða eða niðurfelling ákveðinna gjalda. Aðgerðirnar geta hvort heldur sem er verið almennar eða sértækar til að mæta áföllum sem dynja yfir tiltekið byggðarlag. Inngangur
Byggðastyrkir geta jafnað tekjur fólks og samkeppnisstöðu fyrirtækja á milli landsvæða, en dregið jafnframt úr hagvexti á landsvísu. Að hluta til geta áhrifin orðið neikvæð vegna skatta í þéttbýli og niðurgreiðslna í dreifbýli sem bjaga framleiðsluákvarðanir. Þá koma einnig til neikvæð áhrif vegna minni stærðarhagkvæmni þegar fyrirtæki flytja úr þéttbýli í strjálbýli þar sem þau njóta ekki lengur sömu hagkvæmni og áður: Fyrirtækin geta síður lært hvert af öðru, þau hafa ekki lengur aðgang að vinnumarkaði þar sem aðgangur að sérhæfðu vinnuafli er auðveldur og þau njóta ekki lengur nálægðar ýmissa þjónustufyrirtækja sem styrkja starfsemi þeirra. Lögmál efnahagslífsins leiða að öðru jöfnu til þess að fyrirtæki þjappa sér saman vegna þess að þau hafa hag af slíku fyrirkomulagi. Inngangur
En stjórnvöld geta valdið brenglun með því að greiða fyrirtækjum fyrir að staðsetja sig þar sem þau myndu annars ekki vilja hafa starfsemi sína. Það gengur að vissu leyti gegn hagrænum sjónarmiðum að styrkja framleiðslu sem er fjarri þeim mörkuðum sem hún þjónar. Þannig verður jöfnuður í dreifingu byggðar oft á kostnað hagvaxtar. En eins og fjallað er um í fyrsta hluta skýrslunnar getur viðvarandi fólksfækkun haft í för með sér ytri áhrif vegna lægri skattstofna sveitarfélaga og lækkandi fasteignaverðs, og opinber afskipti eru því í einstaka tilvikum réttlætanleg á grundvelli hagkvæmnissjónarmiða. Inngangur
Tillögurnar sem hér eru settar fram miða að því að efla þrjá stóra byggðarkjarna utan höfuðborgarsvæðisins: Norðurland með Akureyri sem miðpunkt, Vestfirði með Ísafjörð sem miðpunkt og Mið-Austurland með Egilsstaði sem miðpunkt. Ástæðan fyrir því að áhersla er lögð á þessa kjarnauppbyggingu er ekki sú að byggð á jaðarsvæðum skipti engu máli. Þvert á móti: Markmiðið er að efla miðlæga byggðarkjarna sem styrkt geti viðkomandi svæði í heild. Þannig skal miða fjárfestingar í innviðum að því að stækka áhrifasvæði ofangreindra byggðarkjarna svo að jaðarbyggðir geti sótt þangað ýmsa sérhæfða framleiðsluþætti og þjónustu með auðveldum hætti. Það er ekki dauðadómur fyrir jaðarbyggðirnar að leita eftir þjónustu, sem ekki stendur undir sér á smærri stöðum, tiltölulega skamman veg í næsta byggðarkjarna. Dómurinn felst fremur í því að neyðast til að leita þjónustu um langan veg, jafnvel allt til höfuðborgarinnar. Tillögur
Fjarlægðir og flutningskostnaður hafa almennt veruleg áhrif á staðsetningu fyrirtækja og verð á neysluvörum. Hér eru að verki kraftar sem ásamt stærðarhagkvæmni knýja þéttbýlismyndun áfram. Sparnaður á flutningskostnaði er ein helsta ástæðan fyrir því að framleiðslan safnast fyrir á fáum afmörkuðum stöðum og fyrirtæki í dreifbýli þurfa ávallt að leggja í meiri kostnað til þess að yfirvinna fjarlægðir. Ef fyrirtæki í dreifbýli, fjarri mörkuðum, á að vera arðbært er nauðsynlegt að það búi við staðbundna framleiðsluþætti sem veita því hlutfallslega yfirburði yfir framleiðslu í þéttbýli. Nokkrar leiðir sem hugsanlega geta bætt upp það óhagræði sem af flutningskostnaði hlýst í fjarlægum byggðum eru. Virðisaukaskattur Þungaskattur Tryggingargjald Endurgreiðslur á flutningskostnaði Tillögur: Flutningskostnaður
Þegar nýir skólar eru settir á laggirnar á landsbyggðinni eykur það líkur á því að unga kynslóðin fari í framhaldsnám, auk þess sem hún er líklegri til þess að staldra við í heimabyggð. Rannsóknir sýna að nemendur sem sækja nám til Akureyrar eru mun líklegri til búsetu á Norðurlandi að námi loknu en nemendur sem sækja til Reykjavíkur. Aukinn mannauður á landsbyggðinni verður einnig til þess að auka stærðarhagkvæmni þeirra fyrirtækja sem þar eru staðsett. Vel menntaðir einstaklingar geta einnig séð fyrirtækjum fyrir ýmiss konar sérhæfðri þjónustu. Þá er líklegt að samfélag með vel menntuðum íbúum sé líklegra til þess að fæða af sér nýjar hugmyndir sem knýja atvinnulífið áfram. Ný fyrirtæki verða til úti á landsbyggðinni, samkeppni eykst og vöruverð lækkar. Bætt menntun verður þannig til þess að efla byggð án þess að slíkt bitni á þjóðartekjum og hagvexti. Þvert á móti munu þjóðartekjur og hagvöxtur aukast. Tillögur: Menntun
Hér er lagt til að styrkir til menntamála verði meginstoðin í þeirri viðleitni að styrkja ofangreindar þrjár byggðamiðstöðvar. Þannig verði: Háskólanum á Akureyri gert kleift að koma upp öflugum útibúum á Egilsstöðum og Ísafirði þar sem hægt væri að taka a.m.k. fyrstu árin í fjölmennustu greinum háskólanáms, svo sem viðskiptafræði, lögfræði, heilbrigðisgreinum og kennaramenntun. Framhaldsskólum á landsbyggðinni verði gert kleift að koma sér upp útibúum á smærri þéttbýlisstöðum til að gera ungu fólki kleift að stunda nám í heimabyggð sinni til allt að 18 ára aldurs. Almenningssamgöngur frá jaðarsvæðum til byggðarkjarna verði efldar í því augnamiði að gera nemendum jaðarsvæða kleift að sækja framhaldsmenntun. Afborganir af námslánum felldar niður í t.d. fimm ár að námi loknu sé viðkomandi einstaklingur sannanlega búsettur á landsbyggðinni. Til að efla nýsköpun og fjölbreytni atvinnulífs beiti hið opinbera sér fyrir tæknigörðum í tengslum við háskóla þar sem nemendur geta gert tilraunir með nýjar atvinnugreinar og atvinnurekstur. Brýnt er að huga að jöfnu aðgengi fólks að endurmenntun. Tillögur: Menntun
Bættar samgöngur hafa breytt samskiptum fólks víða úti á landi á þann hátt að margir sækja atvinnu og þjónustu um sífellt lengri veg. Með því að stækka atvinnu- og þjónustusvæði er í raun verið að breyta atvinnu- og þjónustustigi þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga. Í ljósi þessa er lagt til að: Við forgangsröðun framkvæmda í samgöngukerfinu sé litið sérstaklega til þess að hafa áhrif á stærð atvinnu- og þjónustusvæða. Samgöngukerfið á Íslandi skuli byggt upp á þann hátt að samgöngur frá jaðarsvæðum að miðstöð hvers byggðarkjarna verði auðveldaðar, en einnig á milli landsbyggðarmiðstöðvanna og höfuðborgarsvæðisins. Stefnt skal að því að fólk geti sótt vinnu í hverri miðstöð frá fjarlægari byggðum. Tillögur: Samgöngur
Fjárfesting í hraðvirkara netsambandi innanlands og tækjum til fjarkennslu og -funda veldur því að samskipti stjórnenda og starfsmanna á milli landshluta verða auðveldari. Því er hér lagt til að: Stefnt skuli að aukinni fjartengingu byggðarkjarnanna og lækkun kostnaðar. Slík fjartenging getur þá auðveldað fundahöld þar sem einstaklingar búsettir á hinum ýmsu landshornum geta mæst og skipst á skoðunum. Að ríkisstofnanir komi sér upp vefþjónustu þannig að einstaklingar og fyrirtæki þurfi síður að leita til höfuðborgarsvæðisins til þess að sinna sínum erindum við þessar stofnanir. Tillögur: Fjarskipti
Í þessari rannsókn er leitast við að festa fingur á búsetu- og rekstrarskilyrðum á Íslandi og setja fram tillögur um það hvernig stjórnvöld geti haft áhrif þar á. Þau meginatriði sem virðast ráða mestu um búsetu- og rekstrarskilyrði eru, auk þátta sem eru utan áhrifasviðs stjórnvalda: flutningskostnaður, menntun og samgöngur, og bera tillögur allar keim af þessu. Einhverjir munu eflaust telja að tillögurnar leiði til minni hagkvæmni en ef hlutirnir væru látnir þróast eins og verða vildi án afskipta stjórnvalda. Þá ber að hafa í huga að nú á dögum er um 8,5 milljörðum króna varið til byggðamála á Íslandi – upphæð sem hugsanlega væri hægt að verja á áhrifaríkari hátt en nú er gert. Niðurlag
Einnig koma til önnur sjónarmið en ýtrasta hagkvæmni. Stefna hins opinbera þarf ekki að ráðast að öllu leyti af hagkvæmni í þeim skilningi að markaðsöflin ein ráði, heldur af gildismati samfélagsins og vali stjórnmálamanna. En til að tryggja að valið endurspegli vilja samfélagsins er hins vegar nauðsynlegt að þær leiðir sem stjórnvöld velja að fara hverju sinni byggist á gagnsæi og kostnaðurinn sé öllum ljós og markmið skýr. Það er hagkvæmt! Niðurlag